Innlent

Engar reglur um tölvuleiki

Móðir segir verslunina BT hafa selt þrettán ára syni hennar tölvuleik sem ekki sé ætlaður börnum að átján ára aldri. Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, segir margítrekaðar beiðnir til menntamálaráðuneytisins um að reglur séu settar um tölvuleiki ekki hafa borið árangur. Virðist sem pólitískan vilja skorti. Rakel Guðmundsdóttir segir son sinn hafa keypt nýja útgáfu af leiknum Grand Theft Auto fyrir fé sem hann fékk í afmælisgjöf um dagana. Hún hafi leitað til Neytendasamtakanna, umboðsmanns barna og haft samband við menntamálaráðuneytið þar sem hún hugðist kæra verslunina til lögreglu en hafi þá komist að raun um að engar reglur giltu um tölvuleiki. "Það er slæmt að hafa engin lög og reglur um sölu á tölvuleikjum því þá eru engar forsendur til að kvarta og kæra þegar börnin komast yfir svona leiki," segir Rakel sem skilaði leiknum til verslunarinnar og fékk endurgreitt. Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri BT, segir verslunina setja sér eigin reglur. Vilji börnin kaupa leiki sem erlendis séu bannaðir sé hringt í foreldra og viðskiptin borin undir þá: "Við vorum með bann við sölu til barna en fengum þá reiða foreldra í verslanirnar sem vildu leyfa kaupin." Guðmundur segir leitt að reglur hafi verið brotnar í þetta sinn. Nýverið hafi þær verið imprað á þeim á nýjan leik. Mál af sama tagi kom upp í fyrra þegar önnur útgáfa leiksins kom í sölu. Vigfús Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri tölvuverslunarinnar Start, segir leikinn skera sig úr öðrum ofbeldisleikjum þar sem leikmenn tilheyri glæpagengjum og sé hrósað fyrir barsmíðar og dráp meðal annars á börnum og konum. Leikurinn hafi mjög raunverulega ásýnd og sé vafasamur. Með nýrri útgáfu hafi ofbeldið magnast. Verslunin Start selji hann ekki en hafi aðra leiki bannaða börnum til sölu. Þeir séu ekki í hillum og aldrei í sýningarvélum verlsunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×