Innlent

Hagamelsmálið þingfest

Mál móður sem varð dóttur sinni að bana og særði son sinn á heimili þeirra við Hagamel í vor, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Dómari tekur síðar afstöðu til þess hvort að konan er sakhæf. Móðirin, sem er á fimmtugsaldri varð 12 ára dóttur sinni að bana á heimili þeirra á meðan dóttirin svaf og hún særði eldri bróður hennar með hnífi. Drengnum tókst að komast út úr íbúðinni og kalla eftir hjálp. Konan hefur verið vistuð á réttargeðdeildinni að Sogni frá því verknaðurinn var framinn og telur geðlæknir sem hefur skoðað hana að hún sé ekki sakhæf. Konan er ákærð fyrir brot gegn 211. grein almennra hegingarlaga, en við því liggur fangelsisvist, ekki skemri en 5 ár og allt að ævilöng og hún er einnig ákærð fyrir brot gegn 20. grein hegningarlaga sem kveður á um tilraun til verknaðar, en þar er átt við árásina að syni hennar. Ákæruvaldið gerir kröfu um refsingu, en til vara að konan sæti öryggisgæslu. Aðalmeðferð málsins verður um miðjan janúar, en eftir það tekur dómari afstöðu til sakhæfis konunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×