Innlent

Eins og leit að nál í heystakki

Kanadískur maður um fimmtugt lést en 17 ára bróðursonur hans lifði af þegar skútan þeirra sökk á Faxaflóa í gærkvöld. Sigmaður Landhelgisgæslunnar segir aðstæður til leitar hafa verið afar erfiðar og mennina hafa fundist fyrir tilviljun. Mennirnir voru á siglingu frá Kanada til Noregs þegar leki kom að skútunni á Faxaflóa. Þeir náðu símasambandi við ættingja sína í Kanada sem höfðu svo samband við björgunarstöðina í Halifax Hún hafði þegar samband við Landhelgisgæsluna sem kallaði út áhöfn TF-LÍF. Hún lét einnig senda skipum á svæðinu upplýsingar um málið í gegnum tilkynningaskylduna. Varnarliðið var ennfremur beðið um að setja þyrlu í varnarstöðu. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið klukkan hálf sex og þremur stundarfjórðungum síðar fundust mennirnir á floti í sjónum. Auðunn Kristinsson, sigmaður Landhelgisgæslunnar var í áhöfn þyrlunnar í gær. Hann segir allar aðstæður til leitar hafa verið afar erfiðar. Strekkingsvindur hafi verið en þá hefði sjólag ekki verið eins slæmt miðað við verður. Hann segir að það hafi verið eins og að leita að nál í heystakk að leita að mönnunum í sjónum. Staðsetningin sem þeir höfðu til hliðsjónar hafi verið tveggja tíma gömul og búast megi við reki á þeim tíma. Það hafi því verið hrein tilviljun að þeir römbuðu á báða mennina. Auðunn seig niður til mannanna og hjálpaði fyrst yngri manninum og síðan eldri frænda hans, sem var þegar látinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með mennina rúmlega 7 við flugskýli Landhelgisgæslunnar og var farið með piltinn á bráðamóttöku Landspítalans. Ekki fengust upplýsingar um líðan hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×