Innlent

2 ár frá fyrstu húsleit hjá Baugi

MYND/Stöð 2
Rétt um tvö ár eru liðin frá því að húsleit var fyrst gerð í höfuðstöðvum Baugs, 28. ágúst 2002, vegna meintra fjársvika Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gagnvart Baugi. Síðan þá virðist sem rannsóknin hafi vafið upp á sig. Skömmu eftir húsleitina í höfuðstöðvum Baugs voru gerðar húsleitir hjá Baugi í Bandaríkjunum og í hlutdeildarfélagi fyrirtækisins í Færeyjum. Næsta húsleit var gerð á vegum skattrannsóknarstjóra í nóvember í fyrra. Lagt var hald á gögn eftir ábendingum frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Í vor sótti síðan lögreglan í Lúxemborg gögn um Baug í banka Kaupþings í Lúxemborg. Rannsóknin beinist ekki að fyrirtækinu sjálfu heldur að þeim Jóni Ásgeiri, þáverandi stjórnarformanni, og Tryggva Jónssyni, þáverandi forstjóra. Báðir hafa þeir neitað allri sök. "Rannsóknin er enn í fullum gangi, án þess að ég vilji segja til um hvenær henni kunni að ljúka," segir Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×