Innlent

Ævintýraleg ferð í Þórsmörk

Þrír öflugir Unimok-jeppar Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu ferjuðu sextíu skólakrakka yfir Steinholtsá í Þórsmörk í gærkvöldi. Rútur sem flytja áttu nemendurna heim á leið eftir sólarhringsferð komust ekki yfir ána vegna vatnavaxta. Hóparnir voru tveir. Annar úr Rimaskóla og hinn úr Borgarholtsskóla. Rúta með þrjátíu nemendum tíunda bekkjar Rimaskóla rétt slapp yfir ána um ellefu leytið í morgun og biðu þeir við árbakkann eftir félögum sínum. Jónína Ómarsdóttir, umsjónarkennari í unglingadeild Rimaskóla, segir að vel hafi gengið að koma hópnum yfir. Krakkarnir hefðu þó verið orðin svöng og mál að pissa þegar leið á kvöldið. "Þau voru spennt og litu á björgunina sem Survivor ferð. Þau voru ofsalega kát með ævintýrið sem krökkunum fannst skemmtilegur bónus." Foreldrar voru áhyggjufullir og hringdu Í Rimaskóla þar sem Marta Karlsdóttir, deildarstjóri unglingadeildar, var fyrir svörum: "Börnin voru örugg allan tímann og fóru ekki að neinu óðslega. Það var aldrei nein hætta." Óli Ágústsson var meðal nemenda í ferðinni. "Það voru allir geðveikt spenntir og svaka mikið í ánni. Svo voru stelpurnar svolítið hræddar á köflum. Við þurftum að bíða geðveikt lengi við ána en fórum út og urðum frekar blaut enda grenjandi rigning. Þetta var þvílíkt ævintýri."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×