Innlent

Þykir mikið til Barnahússins koma

Silvia Svíadrottning segir að sér þyki mikið til Barnahússins á Íslandi koma og að það sé fyrirmynd fyrir önnur lönd. Hún og konungurinn eru ánægð með Íslandsheimsókn sína, þótt veðrið hefði mátt vera betra. Sænski ríkisarfinn, Viktoría prinsessa, fór snemma í morgun í Latabæ og hitti þar fyrir íþróttaálfinn, Glanna glæp og Sollu stirðu svo einhverjir séu nefndir og virtist skemmta sér hið besta. Að lokinni dvölinni í Latabæ fór hún ásamt konungsjónunum, forsetahjónunum og fylgdarliði austur að Nesjavöllum og þaðan til Þingvalla. Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við gestina og skyggni þannig að ekki var reynt að rýna fram af Hakinu eins og til stóð, heldur brunað niður Almannagjá í rútu og á Lögberg þar sem farið var yfir sögu staðarins. Í Þingvallabænum gafst gestunum færi á að þurrka sér og hlýja í boði forsætisráðherra og var dvalið þar um hríð, en hádegisverður snæddur í Valhöll. Á leið til Reykjavíkur var komið við á Gljúfrasteini, þar sem Auður Laxness ekkja Nóbelskáldsins hitti gestina. Í dagslok var ánægja með daginn og heimsóknina. Karl XVI Gústaf Svíakonungur, minntist á að veðrið hefði mátt vera betra. Þetta væri þriðja heimsókn hans til landsins. Hann sagði Reykjavík hafa vaxið mikið og tók sérstaklega eftir því að allt væri orðið grænna en fyrir 30 árum. Silvia drottning lagði mikla áherslu á að kynnast málefnum íslenskra barna. Í gær heimsótti hún Barnaspítala Hringsins og segir hún að sér þyki mikið til starfs Hringskvenna koma, krafts þeirra, frumkvæðis og umhyggju. Í dag heimsótti hún síðan Barnahúsið og sagðist hún hafa heyrt margt um það meðal annars á ráðstefnu sem hún sótti. Hún segir húsið vera frábæra fyrirmynd og vonar að önnur ríki taki sig á við að bæta líf barna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Hún segir að í Reykjavík hafi þetta verið gert á mjög manneskjulegan og hlýjan hátt á grundvelli barnanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×