Innlent

Umsókn ekki komin frá ráðuneyti

Kvennaskólinn í Reykjavík fór þess á leit við menntamálaráðuneytið í apríl síðastliðinn að sótt yrði um lóð fyrir skólann á Mýrargötusvæðinu í Reykjavík. "Gert er ráð fyrir slíkri stofnun þar og ég vildi gjarnan að þar yrði byggt yfir Kvennaskólann," segir Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, skólameistari Kvennaskólans, og fer ekki leynt með að helst vilji hún að skólanum sé fundinn staður sem næst miðbænum. "Byggt var hús yfir skólann við Austurvöll 1875-6 sem nú gengur undir nafninu NASA. Skólinn flutti svo hér að Fríkirkjuvegi árið 1909. Þetta er miðbæjarskóli og á að vera það, finnst mér," sagði hún. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður umhverfis- og byggingarnefndar Reykjavíkur, segir að ekki hafi borist umsókn um lóð fyrir skólann á Mýrargötusvæðinu. "Reyndar var ég einmitt að furða mig á því hér í samtali við félaga mína að bréf skuli ekki enn hafa borist frá ráðuneytinu, því ég átti fund með skólameistara Kvennaskólans fyrir nokkru og vissi af umleitan hennar." Hún segir borgina hafa bent ráðuneytinu á nokkra staðsetningarkosti fyrir framhaldsskóla í borginni. "Til dæmis Valssvæðið, hugsanlega möguleika á fyllingunni við Eiðsgranda og svo Mýrargötusvæðið." Ekki fengust svör frá menntamálaráðuneytinu í gær vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×