Innlent

Milljóna - Svíinn ákærður

Rannsókn lögreglunnar á sænskum ferðalangi, sem tekinn var með 2 milljónir króna í reiðufé 21. maí síðastliðinn í Leifsstöð, var á lokastigi í gær. Einn maður var yfirheyrður hjá lögreglunni í gærdag, sem vitni, en hann var ekki talinn hafa stöðu grunaðs manns. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var fyrirhugað að leggja fram í héraðsdómi ákæru á Svíann í dag. Það var fyrir árvekni starfsmanna sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli sem maðurinn var handtekinn. Hann hafði sýnt mikil merki taugaveiklunar við innritun, samkvæmt upplýsingum blaðsins, og var svo orðinn allölvaður þegar hann hugðist ganga um borð í flugvélina sem var á leið til Bretlands. Starfsmenn öryggisdeildar sýslumannsembættisins stöðvuðu hann þá og við rannsókn fundust tvær milljónir króna í jakka - og buxnavösum hans, bæði í notuðum og nýjum þúsundkrónaseðlum. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. maí, en það var síðan framlengt til 11. júní. Maðurinn hafði dvalið hér á landi síðan 6. apríl. Hann hafði gist á ýmsum gistiheimilum, bæði í Reykjavík og Kópavogi. Þegar á dvölina leið leigði hann sér herbergi, sem hann bjó í þar til hann hugðist yfirgefa landið. Hann er fæddur í Tyrklandi en er með sænskan ríkisborgararétt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×