Innlent

Ónýt eftir nauðhemlun

Gríðarlegur hvellur varð til þess að flugmenn á breiðþotu Atlanta-flugfélagsins hættu við flugtak í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, á dögunum. Mikinn reyk lagði frá vélinni þegar flugmennirnir nauðhemluðu og beygðu svo út af flugbrautinni. Boeing 747 breiðþotan var fullhlaðin af fragt og eldsneyti, þegar hún hóf flugtak og vóg því um 360 tonn. Vélin var rétt komin á flugtakshraða þegar flugmennirnir heyrðu háan hvell. Mótorar vélarinnar voru á fullri orku og veghljóð frá flugbrautinni, og því mikill hávaði í stjórnklefanum. Þannig að þegar flugmennirnir tala um að þeir hafi heyrt mikinn hvell, er ljóst að hann hefur ekki verið neitt smáræði. Þeir ákváðu samstundis að hætta við flugtak og nauðhemluðu bæði með mótorunum og fótbremsum. Þegar ljóst var að ekki yrði hægt að stöðva vélina áður en hún færi fram af brautarendanum reyndu þeir að snúa henni þversum, á brautinni. Við það fór hún út af flugbrautinni og stakkst á nefið í sandinn. Áhöfnin forðaði sér út um neyðarútganga, en ekki kom upp neinn eldur í vélinni. Hún er hinsvegar talin ónýt eftir atvikið. Þegar vélin var skoðuð eftir þetta kom í ljós að margir hjólbarðar voru sprungnir. Hinsvegar er ekki vitað hvort sprenging þeirra hafi valdið hvellinum, eða hvort þeir sprungu þegar flugmennirnir nauðhemluðu. Þormóður Þormóðsson, fulltrúi Rannsóknarnefndar flugslysa við rannsóknina á þessu óhappi, sagði í samtali við fréttastofuna, að hluti af hjólabúnaði vélarinnar verði sendur til rannsóknar, líklega í Bandaríkjunum. Lesið verður af flugritum vélarinnar, í Bretlandi, í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×