Innlent

Sagt upp fyrir að losa úrgang

MYND/Kristín
Starfsmanni ítalska fyrirtækisins Impregilo við Kárahnjúkavirkjun hefur verið sagt upp störfum fyrir að hafa losað spilliefnaúrgang með hætti sem ekki samræmist umhverfisreglum fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Impregilo segir að þegar hafi verið gripið til ráðstafana til þess að útiloka að umhverfistjón hlytist af verknaðinum. Í tilkynningu Impregilo segir jafnframt: „ ......grafnar voru í jörðu tvær 200 lítra tunnur með tuskum sem notaðar höfðu verið til þess að hreinsa olíu við Aðgöng 3, auk einar tómrar tunnu. Ástæðu atviksins má rekja til starfsmanns er vildi einfalda sér vinnuna og í stað þess að losa úrganginn með eðlilegum hætti ákvað hann að fara þessa óheppilegu leið. Þessum einstakling hefur þegar verið sagt upp störfum. Leiði rannsókn í ljós að aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafi verið viðriðnir þetta atvik mun Impregilo einnig bregðast við með sama hætti hvað þá varðar. Impregilo leggur mikið upp úr því að verklagsreglur fyrirtækisins séu virtar og lítur þetta atvik mjög alvarlegum augum. Farið er ítarlega yfir verklagsreglur fyrirtækisins með öllum nýjum starfsmönnum og því þykir Impregilo ákaflega miður að reglur fyrirtækisins skyldu hafa verið brotnar með þessum hætti. Í dag hefur fyrirtækið grafið upp umræddar tunnur og komið úrgangi þeirra fyrir á eðlilegan hátt. Viðeigandi yfirvöldum hefur þegar verið tilkynnt um málið og unnið verður með þeim svo draga megi úr líkum að svona atvik endurtaki sig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×