Innlent

Þjónustan á Vogi minnkuð

Sjö stöðugildi verða lögð niður á Vogi og þjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga skert í sparnaðarskyni. SÁÁ hefur spennt bogann of hátt miðað við tekjur. Áfram verður staðið við þjónustusamning sem í gildi er milli heilbrigðisráðuneytisins og SÁÁ en önnur þjónusta skorin niður. Þórarinn Tyrfingsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs hjá SÁÁ, segir að það sé eins og alþingismenn og aðrir í þjóðfélaginu skilji ekki að bráðaþjónustan í Reykjavík þarf aukna fjármuni vegna breyttrar aðkomu sjúklinga að henni og breytinga á þeirri þjónustu sem veitt er. Sjö starfsmönnum sjúkrahússins Vogs, sem er þungamiðja starfsemi SÁÁ, verður sagt upp og dregið saman í þjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga. Ráðgjafavakt og sú bráðaþjónusta sem veitt hefur verið við göngudeild meðferðarstofnunarinnar verður lögð af. Innlögnum verður fækkað úr 2350 í 2100, eða um 10%, en við það mun svigrúm til bráða- og flýtiinnlagna minnka verulega. Dregið verður úr viðhaldsmeðferð fyrir ópíumfíkla frá því sem nú er og nýir sjúklingar munu ekki fá þessa meðferð, þótt hún þyki hafa borið mjög góðan árangur. Sjúklingar sem eru yngri en 16 ára verða ekki innritaðir á Vog og þjónusta við vímuefnafíkla sem jafnframt eru með geðsjúkdóma mun minnka. Þeir sem notið hafa þessarar þjónustu á Vogi undanfarin ár verða nú að leita annað. Þórarinn segir að hægt sé að leita til bráðamóttakanna á Landspítalanum, en þó séu þær ekki sérhæfðar til að fást þennan vanda. Þessu fylgir mikill kostnaður fyrir Landspítalann.  Með aðgerðunum næst 45 milljón króna sparnaður sem nemur rúmlega 10 prósentum af um 380 milljón króna árlegum rekstrarkostnaði á Vogi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×