Innlent

Forvarnir góðar í Hafnarfirði

MYND/Róbert
Forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar þakkar það hafnfirsku stórfjölskyldunni að tekist hefur að minnka umtalsvert vímuefnaneyslu og reykingar ungs fólks í bænum. Á hverju ári gerir Rannsókn og greining rannsókn á lífstíl ungs fólks. Helstu niðurstöður í ár eru þær að reykingar hjá unglingum í 10. bekk minnka umtalsvert. Árið 2003 reyktu 19% unglinga í 10 bekk daglega en 2004 var talan komin í 15%. Hlutfall nemenda í 10. bekk sem hafa orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga hefur farið stiglækkandi frá árinu 2002 en þá höfðu 39% nemenda úr 10. bekk orðið ölvuð síðustu 30 daga. Árið 2003 var talan 36% en vorið 2004 var talan orðin 25%, sem er lægra en landsmeðaltalið. Mestur er munurinn hjá stúlkum. Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, segir markvisst samstarf þarna að baki. Leitað var til foreldrafélaganna, skólanna, félagsmiðstöðvanna, lögreglunnar og félagsþjónustunnar og stóðu allir að mörgum litlum verkefnum sem gert hefur að verkum að útkoman er svona jákvæð. Að sögn Geirs má því segja að hafnfirska stórfjölskyldan hafi tekið sig á. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×