Innlent

Var vel tekið

Það munaði minnstu að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrði troðin undir, þegar hún heimsótti leikskólann Hof, í dag. Ráðherrann lét sér það vel líka. Tilefni heimsóknar menntamálaráðherra var að félagið IBBY (International Board on Books for Young people), á Íslandi, hefur fært öllum leikskólum á landinu dagatal, að gjöf, í því augnamiði að hvetja leikskólakennara, foreldra og aðra uppalendur til þess að lesa sem mest fyrir börn, allt frá unga aldri. Tólf myndahöfundar gáfu félaginu leyfi til þess að birta myndir sínar úr útgefnum barnabókum, í dagatalinu. Hver mánuður skartar því skemmtilegri mynd, ásamt texta sem henni fylgir. Vonast er til að með því að láta dagatalið hanga uppi í leikskólum vakni forvitni barna á bókum. Menntamálaráðherra var vel tekið, og lá við að hún yrði troðin undir, þegar hún settist, til að fara yfir dagatalið með börnunum. Þorgerður Katrín þakkaði IBBY þessa góðu gjöf, og sagði að það væri mjög mikilvægt að börn lærðu snemma að lesa, því góð lestrarkunnátta væri grundvallaratriði fyrir framtíðina. Hún sagðist sjálf lesa fyrir börnin sín, þó að það mætti alltaf vera meira.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×