Innlent

Enginn samningur við Esso

Forstjóri Samkeppnisstofnunar vísar því algjörlega á bug að samkomulag hafi verið gert við Essó við rannsókn samráðsmálsins. Hann segir ummæli stjórnarformanns Essó um annað, ranga. Stöð 2 birti fyrir helgi hluta af yfirheyrslu Ríkislögreglustjórans yfir Kristjáni Loftssyni stjórnarformanni Kers, áður Olíufélagsins, þar sem hann sagði að þrenn skilyrði hefðu verið sett fyrir samstarfi við Samkeppnisstofnun, að afsláttur yrði gefinn á sektum, kæmi til þeirra, að ekkert yrði aðhafst varðandi rekstur Olíudreifingar, sem er í eigu Essó og Olís og að samkeppnisyfirvöld færu ekki með málið að fyrra bragði til lögreglu. Kristján Loftsson staðfesti í fréttum Stöðvar 2 um helgina að gengið hafi verið að þessum skilmálum. Georg Ólafsson, forstjóri Samkeppnisstofnunar, segir það hins vegar rangt. Hann segir Samkeppnisyfirvöld ekkert hafa um það að segja hvaða málefni lögregla telur ástæðu til að taka upp. Stofnunin geti því ekki gert neina samninga um að tiltekin mál fari ekki til lögreglu. Georg segir þann afslátt sem veittur var á sektum sé bundinn í lög og ákveðin skilyrði séu fyrir rekstri Olíudreifingar. Hann segir að hjá Samkeppnisstofnun vilji menn ekki tjá sig mikið að svo stöddu, þar sem það liggi fyrir að málið fari til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×