Innlent

Stefnt að samningum innan 5 daga

Samninganefndir sveitarfélaga og grunnskólakennara stefna að því að ná samningum innan fimm daga, eða áður en deilan fer fyrir gerðardóm sem aðilar eru sammála um að sé slæmur kostur. Seint í gærkvöld undirrituðu samningsaðilar viljayfirlýsingu þessa efnis. Þá bauð samninganefnd sveitarfélaganna kennurum 130 þúsund króna eingreiðslu, auk þess að launatafla yrði þegar hækkuð um 5,5 prósent. Þrátt fyrir að kennarar hefðu áður farið fram á slíka launahækkun, var hún afþökkuð. Finnbogi Sigurðsson, formðaur félags grunnskólakennara, segir að hugmyndin hafi verið skilyrt við það að samningar næðust og það hafi verið eining um það innan samninganefndar kennara að ekki væri hægt að samþykkja slíkt skilyrði. Samningsaðilar eru sammála um að lagasetninging setji þeim nýjar kvaðir, og ræni báða aðila samningsrétti. Því er einarðlega stefnt að því að ná samningum, sem bornir verða undir atkvæði kennara, fyrir 20. nóvember, þegar ákvæði um gerðardóm tekur gildi. Finnbogi segir að landslagið hafi breyst eftir að lögin væru sett og það gæti flýtt fyrir samningaviðræðum. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitafélaganna, segir lögin breyta stöðu deiluaðila, sem verði að reyna að semja frekar en að til ákvæðis um gerðardóm komi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×