Innlent

Á þriðja hundrað í útgöngubanni

Féð í Möðrudal á Möðrudalsöræfum er ekkert yfir sig ánægt þessa dagana. Það hefur verið sett í útgöngubann eftir eldgosið í Grímsvötnum og fær ekki að fara út fyrr en einhvern tíma eftir áramót. Bændur þar á bæ eru því með á þriðja hundrað fjár á fullri gjöf, þótt nóvembermánuður sé ekki nema rétt um það bil hálfnaður. "Við erum alveg með féð á gjöf, en höfum nýlega hleypt hestunum í stærra rými, þar sem þeir hafa hey og rennandi vatn, en geta jafnframt gripið í jörð," sagði Anna Birna Snæþórsdóttir, bóndi á Möðrudal á Möðrudalsöræfum. Skömmu eftir að gosið hófst í Grímsvötnum urðu bændur á Möðrudal að smala saman öllum bústofni sínum vegna öskufalls og hættu á flúoreitrun samfara því. Fyrr í vikunni rigndi hressilega og eftir það hafa hrossin fengið aukið frelsi. En féð verður alveg inni, samkvæmt ráðleggingum þar til bærra fagmanna "Þeir mælast til þess að það fari ekki út fyrr en eftir áramót," sagði Anna Birna. "Við erum því búin að rýja það." Í venjulegu ári háttar svo til, að féð hefur legið við opið fram í desemberbyrjun, svo fremi sem tíðarfar hafi leyft það. Síðan hefur það verið tekið á hús. Þetta munar um það bil mánuði hvað við erum fyrr með þetta núna," sagði hún enn fremur. "Ærnar eru náttúrlega ekki vanar þessu og þær eru óskaplega snöggar ef maður gengur um dyr að reyna að drífa sig út. Það segir manni að þær þrá útiveruna sem aðstæður leyfa þeim þó ekki á þessu hausti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×