Innlent

Fordómar aukast hér á landi

Fordómar í garð útlendinga fara vaxandi hér á landi samkvæmt nýrri könnun. Svo virðist sem fordómarnir aukist eftir því sem útlendingum fjölgar. Alþjóðahús kynnti nýja könnun sem Gallup gerði um afstöðu Íslendinga til útlendinga. Um póstkönnun nvar að ræða, endanlegt úrtak var tæplega 2600 manns og fjöldi svarenda tæplega 1100 eða 66%. Spurt var hvort þeir sem flytja til íslands eigi rétt á að halda eigin siðum og venjum. Liðlega 64% er því mjög eða frekar sammála, en það er 13 prósentustigum færra heldur en fyrir fimm árum þegar viðlíka könnun var gerð. Þá var spurt hvort að leyfa ætti fleiri útlendingum að vinna hér á landi. Um 28% töldu að það ætti að gera, sem er 14 prósentustigum færra en árið 1999 og einnig var spurt hvort að Ísland ætti að taka við fleiri flóttamönnum. 27,5 % vilja það, en það er nærri 18 prósentustigum færra en í könnuninni 1999. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, segir þetta ekki koma á óvart, en að gott sé að fá gruninn staðfestan. Hann segir að gefið verði út blað á sunnudaginn, þar sem upplýst verði hvernig afstaðn í samfélaginu sé í raun og veru, þannig að menn geti hagað umræðunni í samræmi við þann veruleika sem blasi við. Einar segir minna um að fordómarnir sýni sig í ofbeldi, meira sé um ósýnilega fordóma, sem sýni sig í annarri framkomu og þjónustu og þess háttar. Hann segir þörf á umræðu vegna þess að útlendingum hafi fjölgað hér á landi og slíkt leiði oft til fordóma. Hann segist vonast til þess að fljótlega verði hægt að ræða málin út frá þeirri stöðu sem hér er uppi, en ekki út frá því sem gerist í Danmörku eða Svíþjóð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×