Innlent

Forysta Iceland Express ósátt

Flugfélagið Iceland Express mótmælir harðlega vinnubrögðum Ferðamálaráðs sem flokkar flugfélagið sem ferðaskrifstofu á þátttökulista íslensku fyrirtækjanna á ferðakaupstefnunni World Travel market sem hófst í London í gær. Flugfélagið segir vinnubrögðin ósvífin og veiti endursöluaðilum og gestum sýningarinnar rangar upplýsingar. Það geti orðið af mikilvægum viðskiptasamböndum og samningum vegna flokkunarinnar. Ársæll Harðarson, markaðsstjóri Ferðamálaráðs, segir viðbrögð flugfélagsins harkaleg. Mestu máli skipti fyrir fyrirtækin að vera rétt merkt í bæklingi og á netinu. Iceland Express hafi ekki hirt um að ganga frá sínum málum þar þrátt fyrir ábendingar Ferðamálaráðs. Flokkun fyrirtækjanna hafi verið á lista yfir þátttakendur á ráðstefnunni og ekki hafi margir litið listann augum. Honum hafi verið breytt og fyrirtækin standi nú óflokkuð á listanum. Ólafur Hauksson, talsmaður Iceland Express, segir erfitt að meta tjónið sem af mistökunum geti hlotist. Þeir eigi að borga um hálfa milljón fyrir þátttöku í sýningunni. Hluti af þeirri upphæð renni til Ferðamálaráðs. Það verði athugað nánar vegna rangfærslunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×