Innlent

Réttur á heilsufarsupplýsingum

Íslandsbanki, sem reið á vaðið með 100 prósenta lán til húsnæðiskaupa, fer fram á að lántakendur fjárfesti í lánatryggingu hjá Sjóvá-Almennum. Tryggingafélagið áskilur sér rétt til að fá ítarlegar heilsufarsupplýsingar frá þeim lántakendum sem eru eldri en þrjátíu ára og þeim sem fá yfir 20 milljónir króna að láni. Meðal skilyrða til þess að fá 100 prósenta lán hjá Íslandsbanka þarf lánatryggingu hjá Sjóvá-Almennum, tryggingafélagi í eigu Íslandsbanka. Forsvarsmenn bankans segja slíka tryggingu ódýra og komi til góða ef fyrirvinna heimilis fellur frá. Vátryggingarfjáræðin greiðist þá til bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að þeir sem taka slíka lánatryggingu þurfi að skila blóð- og þvagsýni til læknis. Einnig að beðið sé um upplýsingar um heilsufar nánustu skyldmenna en slíkt er óheimilt samkvæmt lögum um Persónuvernd nema samþykki skyldmenna liggi fyrir. Í tilkynningu frá Íslandsbanka sem barst fréttastofu í dag er tekið fram að ekki sé farið fram á slíkar heilsufarsupplýsingar frá fólki undir þrítugu, nema því hafi áður verið synjað um persónutryggingu eða hafi ekki verið heilsuhraust síðastliðin þrjú ár. Ef íbúðakaupendur eru hins vegar eldri en 30 ára eða ef lánsfjárhæðin fer yfir 20 milljónir, þá gildi almennar reglur um líftryggingu, til dæmis að farið sé fram á fyrrnefndar heilsufarsupplýsingar og læknisskoðun. Eins og fram hefur komið láta lántakendur þá í té bæði blóðsýni, þvagsýni og upplýsingar um heilsufar nánustu skyldmenna sinna. Við kynningu á 100 prósenta lánum bankans á föstudag sagði aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, Jón Þórisson, aðspurður hvort fók þyrfti að skila inn blóð- og þvagsýnum til að fá lánatrygginguna, að svo væri ekki. Þetta væri bara einföld trygging þar sem gefnar upp væru upplýsingar um kennitölu og búsetu. Ljóst er að þar á aðstoðarforstjórinn einunugis við lántakendur undir þrítugu, sem ekki hefur verið synjað um persónutryggingu, hafa verið heilsuhraustir síðustu ár og kaupa húseign sem kostar minna en 20 milljónir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×