Innlent

Forsætisráðherra kosinn beint

Björgvin G. Sigurðsson og Jóhanna Sigurðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, vinna að hugmyndum um beina kosningu framkvæmdavaldsins. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í gær um þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um breytingar á stjórnarskránni. "Hugmyndin er ekki í tillögu flokksins nú og hefur í raun ekki verið uppi á borðum í pólitík í rúm tuttugu ár," sagði Björgvin sem telur að með beinni kosningu forsætisráðherra mætti fá fram æskilegan aðskilnað löggjafar- og framkvæmdavalds. Björgvin telur beina kosningu besta kostinn til að fá fram aðskilnaði. "Kjörgengir gætu verið þeir sem skila af sér meðmælalistum og svo mætti hafa aðra umferð milli tveggja efstu." Þennan hátt vill hann hafa á kjöri forsætisráðherra sem svo myndi velja sér ríkisstjórn sem samþykkt yrði af þingi eða með öðrum hætti. Í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar felst hins vegar að kosið verði í níu manna nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að endurskoða stjórnarskrána. Kjósa á svo um tillögur nefndarinnar í næstu alþingiskosningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×