Innlent

Áhættumat um eldgos í Mýrdalsjökli

Gerð áhættumats og áhættugreiningar vegna eldgosa og hlaupa til norður, vesturs og suðurs frá Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls er lokið. Í júlí á síðasta ári ákvað ríkisstjórn að tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, að slíkt áhættumat yrði unnið og var hafist handa við það sumarið 2003. Í gær var haldinn fundur með íbúum Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu þar sem niðurstöður áhættumatsins voru kynntar. "Rannsakað var hvað gæti gert ef gysi í Mýrdalsjökli og hlaupið rynni niður Markarfljót í staðinn fyrir niður Mýrdalssand eins og gerst hefur í þau skipti sem gos hefur átt sér stað. Þá myndi vatn flæða yfir Landeyjar og vestur í Þykkvabæ. Í kjölfarið voru viðbragðsáætlanir unnar en í þeim felst að flytja þurfi hluta íbúa svæðisins í burtu ef gos verður með þessum hætti," segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. Kötlugos hefur verið mikið í umræðunni en síðasta gos var árið 1918. Þó langt sé síðan síðasta gos var er ekki líklegt að næsta gos verði stórt. Sökum mikilla umræða um gos á svæðinu kemur áhættumatið og viðbragðsáætlanir heimamönnum ekki á óvart að sögn Víðis. "Góð mæting var á kynningarfundinn. Heimamenn taka þessu með ró og sýna mikinn áhuga á viðbragðsáætlunum þó litlar líkur séu að hlaupið renni niður Markarfljót. Við kynntum fyrir fólki hvernig það ætti að skilja við heimili sín og hvernig flutningur frá svæðinu myndi fara fram," segir Víðir en áhættumatið er aðeins bráðabirgðarskýrsla og verður fullunninni skýrslu skilað í árslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×