Innlent

Samúð í veikindum Davíðs

Leiðtogar Samfylkingarinnar njóta minna trausts en leiðtogar helstu stjórnmálaafla. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar nýtur þó heldur minna trausts en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður. Traust á henni hefur minnkað talsvert frá síðustu könnun eða úr rúmum 14 prósentum í 9 prósent og traust á Össuri virðist fara dvínandi. Ingibjörg Sólrún vill þó ekki draga neinar sérstakar niðurstöður aðrar en þær að könnunin endurspegli þá lognmollu sem ríkt hafi í stjórnmálunum, fólk vilji bersýnilega sýna Davíð Oddssyni samúð í veikindum hans. Pólitísk umræða hafi hins vegar nánast legið niðri að undanförnu og við slíkar aðstæður komi stjórnarherrar yfirleitt vel út. Hins vegar skýrir það ekki mikið traustið sem stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna nýtur: "Nei það er alveg rétt, en Steingrímur hefur lengi haft mikið persónufylgi sem nær út fyrir hans flokk," sagði Ingibjörg Sólrún. Hún var fámál um lítið traust formanns Samfylkingarinnar og sagðist undrandi á því að hún sjálf hefði komist á blað: "Ég hef ekki verið í fylkingarbrjósti að undanförnu og blanda mér ekki í þennan formannaslag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×