Innlent

Smituðust af Noro-veiru

Leikmenn íslenska ungmennalandsliðsins í knattspyrnu sem hafa barist við kviðverki, niðurgang og uppköst síðustu daga töpuðu fyrir liði Ungverja í Búdapest í dag, 1-0l. Sóttvarnarlæknir segir þá hafa smitast af svokallaðri Noro-veiru. Um tugur liðsmanna íslenska landsliðsins fékk heiftarlega í magann á föstudagskvöld eftir að hafa haldið upp á sigur á Búlgörum með ferð á skyndibitastað. Síðar um nóttina urðu nokkrir þeirra illna haldnir og líðanin var lítt skárri þegar þeir flugu til Ungverjalands í fyrradag. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir fótboltakappana hafa fengið Noro-veirusýkingu, eða sömu veiru og gekk manna á milli í Húsafelli og á Mývatni í sumar og hundruð smituðust af. Vangaveltur voru uppi um að leikmennirnir hefðu veikst af skyndibitamatnum sem þeir gæddu sér á en svo mun ekki vera. Haraldur segir veiruna berast frá manni til manns og því líklega ekki einstökum matvælum eða veitingastað um að kenna. Hann segir Noro-veiruna orðna mikið vandamál en hún hefur einnig stungið sér niður á spítölum hér á landi og er bráðsmitandi. Helstu varúðarráðstafanir eru almennt hreinlæti.  Ekki var annað að heyra að landsliðmenn væru orðnir frekar brattir, þrátt fyrir tapleik og veirusýkingu. Ólafur Ingi Skúlason, leikmaður liðsins, sagði mönnum líða vel og leikinn hafa gengið ágætlega þrátt fyrir naumt tap. Hann vildi ekki skrifa tapið á sýkinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×