Innlent

Sundabrautin sett í forgang

Ekki verður ráðist í gerð mislægra gatnamóta við Kringlumýrarbraut og Miklubraut á næstu árum. Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi R-listans og formaður samgöngunefndar, segir að Sundabrautin verði sett í forgang. "Við teljum að Sundabrautin sé eitt brýnasta verkefnið í stórframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu," segir Árni Þór. "Við viljum tengja betur norðurbyggðir svæðisins við miðborgina og Sundabrautin mun auðvitað létta álagið á Vesturlandsveg og Miklubraut." Árni Þór segir borgaryfirvöld telja skynsamlegra að sjá hvaða áhrif Sundabrautin muni hafa á gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar áður en ráðist verði í kostnaðarsamar framkvæmdir á þeim gatnamótum. Þriggja hæða gatnamót við Miklubraut og Kringlumýrarbraut kosti um þrjá milljarða króna. "Það þarf að skoða umferðarmálin heildstætt en ekki bara einstaka hnúta í umferðarkerfinu. Við vitum til dæmis ekki hvaða áhrif mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar myndu hafa við Lönguhlíð. Það getur verið að vandinn myndi einfaldlega flytjast þangað, sem gæti leitt til þess að við þyrftum að leggja út í aðra kostnaðarsama lausn á þeim gatnamótum." Árni Þór segir að undirbúningur nýrrar Sundabrautar sé kominn lengra á veg en mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. "Sundabrautin er í umhverfismati og það er styttra í að það liggi fyrir niðurstaða úr því mati en mati á umhverfisáhrifum mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ég tel að okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka ákvörðun um legu Sundabrautar í vetur og hefjast handa við hönnun á þeirri framkvæmd." Árni Þór segir að kostnaður við Sundabrautina sé um sjö til átta milljarðar króna. Ef allt gangi að óskum ætti hún að geta verið tilbúin eftir þrjú til fjögur ár. Aðspurður segir Árni Þór að þar með sé ekki sagt að ekkert verði að gert á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Hugsanlega verði gerð svokölluð plan-gatnamót en þá eru sér ljós fyrir alla beygjuásana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×