Innlent

Vélamiðstöðin verði einkavædd

Sjálfstæðismenn munu leggja til einkavæðingu Vélamiðstöðvar og Malbikunarstöðvarinnar Höfða á borgarstjórnarfundi í dag að því er kemur fram í tilkynningu frá flokknum. Fundurinn er sá fyrsti hjá borgarstjórn á þessu hausti.  Í tillögu minnihlutans segir meðal annars að Reykjavíkurborg eigi að draga saman seglin þar sem hún eigi í samkeppni við einkaaðila og leyfa fyrirtækjum á starfssviði Malbikunarstöðvarinnar Höfða ehf. og Vélamiðstöðvarinnar ehf. að keppa um að veita þjónustu fyrir borgina á sem hagkvæmastan hátt. Jafnframt vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að borgarstjórn beini þeim tilmælum til Vélamiðstöðvar ehf. um að draga til baka tilboð félagsins í nýlegu útboði vegna þjónustu við endurvinnslustöðvar Sorpu bs. og umsókn sína um þátttöku í útboði vegna flutninga og vélarvinnu í móttökustöð Sorpu i Gufunesi. Samþykkt var að breyta Vélamiðstöðinni í hlutafélag þann 10. september 2002. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu þá bóka í borgarráði: „Að gefnu tilefni árétta borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks nauðsyn þess að tafarlaust verði mótaðar reglur um innkaup á vegum fyrirtækja og byggðasamlaga í eigu eða með aðild Reykjavíkurborgar. Jafnframt er nauðsynlegt að móta með skýrum hætti hvort Vélamiðstöðin ehf. skuli keppa um verkefni á almennum markaði.“ Í tillögunni segir að það sé gangrýnisvert að stjórn Vélamiðstöðvarinnar ehf. hafi ekki gert borgarráði grein fyrir þeim áformum sínum um að færa út kvíarnar á hinum almenna samkeppnismarkaði, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarráði þegar samþykkt var að breyta Vélamiðstöðinni í hlutafélag. Vélamiðstöð hefur með þátttöku sinni í nýlegu útboði Sorpu bs. hafið samkeppni á almennum markaði við fyrirtæki í einkaeigu að því er segir í tillögunni. Það sé því eðlilegast að hugað verði að því sem fyrst að selja fyrirtækið til einkaaðila þannig að öll fyrirtæki á þessum markaði sitji við sama borð við að bjóða í þjónustu fyrir Reykjavíkurborg eða fyrirtæki og stofnanir hennar, segir að lokum í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins..



Fleiri fréttir

Sjá meira


×