Innlent

Rækjuveiði lítil og kvóti verðlaus

"Veiðin hér er svo lítil, það veiðist bara ekki rækja hér nema í mjög takmörkuðu magni. Það segir sig sjálft að þegar olíulítrarnir sem þarf að nota eru fleiri en kílóin sem koma í land þá stendur veiðin ekki undir sér," segir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma - Sæbergs hf. Yfirmönnum á rækjuveiðiskipunum Stálvík og Sólbergi hefur þess vegna verið sagt upp störfum. Ólafur segir fyrirtækið endilega vilja nýta þann rækjukvóta sem það á en því miður séu ekki forsendur fyrir því eins og staðan er núna. Veiðin er léleg og olíuverðið hátt. Eitthvað verði að breytast svo Stálvík og Sólberg verði áfram gerð út á rækju. Ákveðið hefur verið að eitt rækjuveiðiskipa Þormóðs ramma hætti að veiða rækju eftir nokkra mánuði og stendur til að skipið fari á bolfiskveiðar. Ólafur segir fyrirtækið eiga tæplega 3.000 tonna kvóta. Í dag hefst nýtt kvótaár og ekki hefur tekist að veiða nærri allan kvótann. Aflinn hafi aðeins verið rétt um 1100 tonn. Ólafur segir enga kaupendur vera að rækjukvótanum og því sé hann verðlaus. Aðrir útgerðarmenn geti ekki heldur búið til peninga á rækjuveiðum eins og staðan er. Eina sem hægt sé að gera er að bíða og sjá hvort ástandið lagist ekki. Þormóður rammi kaupir mikið magn af rækju frá útlöndum að sögn Ólafs, helst frá Grænlandi, Noregi, Eystrasaltslöndunum og Kanada. "Við erum að vinna um tíu þúsund tonn á ári og aðeins þriðjungur hefur verið að koma frá okkar skipum," segir Ólafur. Jafnframt segir hann að þó að útlit sé fyrir að veiðunum verði hætt á næstunni eigi það ekki að koma niður á vinnslunni. Núna sé ekkert sem bendi til þess en enginn viti þó hvað framtíðin beri í skauti sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×