Innlent

Borgin úr fjarskiptarekstri

Með sölu Orkuveitu Reykjavíkur á Línu.neti til OgVodafone lýkur beinum afskiptum borgarinnar að rekstri fjarskiptafyrirtækja. Fjárfesting borgarinnar hefur numið nálægt fjórum milljörðum króna. Tap á fjarskiptafyrirtækjum borgarinnar hefur numið tæpum tveimur milljörðum á síðustu fimm árum. Pétur Pétusson, upplýsingafulltrúi Og Vodafone, vill ekki tjá sig um efni viljayfirlýsingu fyrirtækisins og Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á fjarskiptafyrirtækinu Línu.net. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Og Vodafone fái að minnsta kosti fjögur hundruð milljón króna meðgjöf við kaup á um sjötíu prósenta hlut Orkuveitunnar í Línu.net. Hugsanlegt er að sú upphæð verði enn hærri. Orkuveitan mun eignast hlut Og Vodafone í ljósleiðarakerfi Línu.nets í staðinn. Orkuveitan eignast einnig hlut í Og Vodafone. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er sá hlutur sex til sjö prósent. Sá hlutur er um átta hundruð milljóna virði miðað við markaðsverðmæti Og Vodafone. "Það er um viljayfirlýsingu að ræða og ekki tímabært að við tjáum okkur nánar um hana," segir Pétur. Stjórn Og Vodafone mun taka afstöðu til viljayfirlýsingar á næsta stjórnarfundi og í kjölfarið má gera ráð fyrir að endanlegir samningar verði gerðir. Rekstur Línu.nets hefur aldrei skilað hagnaði. Í fyrra nam tapið 155 milljónum króna en alls hefur félagið tapað tæplega milljarði króna á núvirði á síðustu fimm árum. Með sölu á starfsemi Línu.net er líklegt að þátttöku Reykjavíkurborgar í rekstri fjarskiptafyrirtækja sé lokið. Orkuveitan mun áfram reka ljósleiðarakerfi og selja aðgang að því en starfsemi Línu.nets verður í raun lögð niður. Miklar deilur hafa staðið um fjarskiptarekstur Reykjavíkurborgar allt frá því að hugmyndir um slíkt voru fyrst reyfaðar í borgarstjórn. Sjálfstæðismenn hafa goldið varhug við þeirri hugmynd að borgin tæki þátt í slíkri atvinnustarfsemi en fulltrúar meirihlutans í Reykjavíkurlistanum hafa bent á að aðkoma fyrirtækja Reykjavikurborgar að markaðinum hafi skilað sér í aukinni samkeppni og þar með lægri kostnaði til neytenda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×