Innlent

Svíakonungur til Íslands

Svíar vænta þess að opinber heimsókn sænsku konungshjónanna og krónprinsessunnar til Íslands í næstu viku efli bæði menningarleg og viðskiptaleg tengsl landanna. Svíakonungur, sem er mikill náttúrudýrkandi, segist vona að farið sé varlega í hvalveiðar og drottningin vill að frændþjóðirnar sameinist gegn kynferðisbrotum gegn börnum. Opinber heimsókn Karls Gústafs sextánda svíakóngs og og Silvíu drottningar hefur verið skipulögð út í æsar eins og Svía er háttur og það ríkir eftirvænting í konungshöllinni sem heldur upp á 250 ára afmæli á þessu ári. Konungurinn hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum og drottningin sömuleiðis. Karl segir að þetta verði þriðja opinbera heimsóknin þannig að þau hafi fylgst með í mörg ár og fengið ákveðna sýn og auk þess hafi þau nokkrum sinnum komið í einkaheimsóknir. Hann segir að Kristján Eldjárn hafi heimsótt Svíþjóð á sjöunda áratugnum svo að hann hafi getað fylgst með þróuninni. Konungur segirst hlakka til að sjá breytingarnar á efnahagskerfinu sem hafa átt sér stað. Það á sér stað umræða um umhverfismál og Ísland, ekki síst í ljósi þess að hvalveiðar hafa hafist á ný. Karl Gústaf segir að Svíþjóð og Ísland hafi samkomulag svo hann skilji aðstöðu Íslendinga. Honum skiljist þó að þetta sé tímabundið. Það sé gleðiefni að þessum rannsóknum sé lokið svo hægt sé að friða þessi dýr. Drottningin mun m.a. heimsækja Barnaspítala Hringsins. Það er í tengslum við baráttu hennar fyrir bættri stöðu barna í heiminum. Hún segist hlakka mjög til þess að heimsækja Barnaspítalann og vonast til að geta líka rætt hvernig hægt sé að bæta stöðu barna í sameiningu. Ekki bara þeirra sem eru sjúk heldur líka barna sem hafa t.d. mátt þola kynferðislegt ofbeldi. Henni finnst Norðurlöndin eigi að vinna mjög náið saman við lausn þessara vandamála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×