Innlent

Þjóðminjasafnið opnar á morgun

Þjóðminjasafnið verður opnað á morgun, en þá verða sex ár liðin frá því að endurbætur á húsnæði safnsins hófust. Ljóst er að gera þarf ögn meira en að skúra, áður en menntamálaráðherra opnar safnið á nýjan leik á morgun því enn átti eftir að ganga frá ýmsum lausum endum þegar fréttastofu bar að garði í dag. Kostnaður við endurbæturnar nema um einum og hálfum milljarði króna og gjörbreyting hefur orðið á allri aðstöðu og umgjörð safnsins, sem hýsir þjóðargersemarnar, allt frá kumli til Konna hans Baldurs. Allt á að verða klappað og klárt fyrir opnun annað kvöld. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, segir að boðið verði upp á stóra og glæsilega grunnsýningu sem muni fjalla um sögu Íslands frá landnámi til dagsins í dag. Fólki ætti að gefast nægur tími til að skoða sýninguna, en gert er ráð fyrir að hún standi næstu fimmtán árin. Í hliðarsölum verða settar upp átta nýjar sýningar ár hvert. Þær fyrstu eru sýning um brúðkaupssiði, ljósmyndasýning í nýjum myndasal og rannsóknarsýning í forsal. Þær marka kaflaskipti í 140 ára gamalli sögu Þjóðminjasafnins, sem telst stofnað árið 1863, en þá fengu stiftsyfirvöld 15 gripi að gjöf með þeirri ósk að þeir yrðu fyrsti vísir að safni íslenskra fornmynja. Fyrstu áratugina var það til húsa á ýmsum háaloftum, Dómkirkju, Hegningahúsi, Alþingishúsi, og Þjóðmenningarhúsi. Við lýðveldisstofnunina var svo ákveðið að reisa safninu hús við Suðurgötu sem flutt var í árið1950. Fyrir sex árum var safninu lokað til að hægt væri að ljúka endurbótum. Þær drógust all-verulegur, en þeim kafla í sögu safnsins lýkur endanlega á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×