Innlent

Strokufangi gaf sig fram

MYND/Vísir
Fangi sem strauk af Litla Hrauni í gærkvöld hringdi í morgun í Fangelsismálastofnun og skilaði sér skömmu síðar í Hegningarhúsið. Deildarstjóri Fangelsismálastofnunar segir of snemmt að segja til um hvort öryggisreglur fangelsins verði hertar, en bendir á að afar fátítt sé að fangar strjúki úr fangelsum á Íslandi. Maðurinn sem er 28 ára gamall og hóf afplánun 22ja mánaða dóms fyrir þjófnaði í mars síðastliðnum strauk af Litla Hrauni um kvöldmatarleyti í gær. Erlendur Baldursson, deildarstjóri hjá fangelsismálastjóri sagði í samtali við fréttastofu í morgun að maðurinn hefði verið á leið í íþróttahúsið þegar hann hvarf. Leit var fljótlega hafinn að honum innan veggja fangelsisins, en þegar ljóst var að maðurinn hafði flúið af svæðinu var haft samband við lögreglu. Lögreglan á Selfossi, í Reykjavík og Hafnarfirði settu þegar upp vegatálma á öllum leiðum til og frá fangelsinu og stöðvuðu alla bíla sem áttu leið um en fundu ekki manninn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu á Selfossi sást til mannsins í höfuðborginni um klukkan 11 í gærkvöldi og var leit að honum þá hætt. Erlendur segir að málið hafi leysts með farsællegum hætti í morgun. Pilturinn hafi hringt strax í morgun þegar skiptiborðið opnaði. Eftir það hafi hann sjálfur komið niður í hegningarhús. Hann mun fara aftur í klefa sinn á Litla-Hrauni og mun verða rannsakað hvernig hann slapp út. Erlendur segir of snemmt að segja hvort öryggisreglur Litla-Hrauns verði endurskoðaðar en ekkert fangelsi í heiminum sé svo vel byggt að ekki sé hægt að komast þaðan eftir einhverjum leiðum. Hann sagði þó fanga á Litla-Hrauni hafa verið nokkuð prúðir og þetta væri í fyrsta sinn í sex ár, sem nokkur stryki úr fangelsinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×