Innlent

Annar mannanna lést

Kanadískur maður um fimmtugt lést en tæplega tvítugur bróðursonur hans lifði af þegar skúta þeirra sökk í Faxaflóa í gærkvöldi. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann mennina klukkan kortér yfir sex í gærkvöldi eftir tæplega klukkustundar leit. Mennirnir höfðu náð sambandi við ættingja sína í Kanada þegar leki kom að skútunni og höfðu þeir samband við björgunarstöðina í Halifax sem setti sig í samband við Landhelgisgæsluna. Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að aðstæður til leitar og björgunar hafi verið erfiðar, mjög hvasst var á svæðinu, lítið skyggni og fjögurra til fimm metra ölduhæð. Einar Valsson, stýrimaður þyrlunnar segir með ólíkindum að mennirnir skyldu finnast svo fljótt því þeir hafi verið í dökkum göllum. Eldri maðurinn var látinn þegar að var komið, en hinn yngri var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans og er hann allur að hressast að sögn talsmanns Landhelgisgæslunnar. Mennirnir voru á leið frá Kanada til Noregs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×