Innlent

Kennarar boða til verkfalls

Grunnskólakennarar boða til verkfalls í þessari viku. Verkfallið hefst eftir réttar þrjár vikur takist ekki að semja. Mikillar svartsýni gætir á meðal kennara. Yfirgnæfandi meirihluti grunnskólakennara samþykkti í sumar að boða til verkfalls frá og með 20. september hafi samningar ekki tekist. Boða verður til verkfalls með 2ja vikna fyrirvara og því verður Kennarasambandið að boða til verkfallsins fyrir sunnudagskvöld. Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara segir varla nokkurn vafa á að boðað verði til verkfallsins, því hann sjái enga möguleika á því að skrifað verði undir samninga fyrir sunnudag. Finnbogi segist ekki treysta sér til að spá fyrir um hvort kennarar fari í verkfall, það komi í raun ekki í ljós fyrr en að kvöldi 19. september. Samninganefndir kennara og Landssambands sveitarfélaga eru enn að ræða vinnutímaákvæði á óformlegum fundum, en hafa verið boðaðir á fund hjá ríkissáttasemjara á fimmtudag. Finnbogi telur að viðræður um launahækkanir verði ekki uppi á borðinu þá, en hann telur þann hluta viðræðnanna ekki verða flókinn, þegar á annað borð verður búið að ná samkomulagi um önnur deiluatriði. Kennarar í fremstu fylkingu samninganna eru ekki bjartsýnir á þróun viðræðna á næstu dögum og óttast margir að til verkfalls komi. Í verkfallssjóði kennara eru til um 900 milljónir króna. Rúmlega 4000 manns kenna í grunnskólum landsins. Komi til verkfalls fá þeir 90 þúsund krónur á mánuði úr sjóðnum og því ljóst að verkfallssjóður kennara getur borið 2ja mánaða verkfall.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×