Innlent

Skúta sökk norðvestur af Garðskaga

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði og Björg frá Rifi ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF Líf, voru kölluð út á fimmta tímanum í dag eftir að neyðarkall barst frá kanadískri skútu um að hún væri að sökkva 43 sjómílur norðvestur af Garðskaga. Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn sást einungis brak. Áhöfn hennar hafði samband við stjórnstöð kl. 18:05 og hafði leit þá engan árangur borið.  Aðstæður til leitar og björgunar voru ekki góðar.  Mjög hvasst var á svæðinu eða 20-25 metrar á sekúndu og skyggni um 2 kílómetrar og lágskýjað.  Ölduhæð var 4-5 metrar.  Skömmu síðar sá áhöfn TF-LIF mennina í sjónum.  Annar þeirra var í björgunargalla en hinn í vesti.  Búið var að hífa þá um borð kl. 18:20.  Að sögn Einars Valssonar stýrimanns í TF-LIF var með ólíkindum að mennirnir skyldu finnast þetta fljótt því þeir voru í dökkum göllum og aðstæður til leitar þetta slæmar. Ekki hefur verið greint frá líðan mannanna.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:06 þar sem sjúkrabifreiðir tóku á móti mönnunum og fluttu þá á sjúkrahús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×