Innlent

Rannsóknum á hrefnum haldið áfram

Rannsókum á hrefnum verður haldið áfram í haust. Sextán 200 þúsund króna merki verða fest á bak hrefna. Annars vegar tíu merki sem sýna staðsetningu þeirra. Hins vegar sex merki sem safna upplýsingum um köfunarhegðun dýranna. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, segir rannsóknina hluta af hrefnurannsóknum síðustu tveggja sumra og eigi að svara viðverutíma hvalanna hér við land. Einnig sé verið að glíma við eina veigameiri spuningu hvalvísinda um allan heim: Hvar skíðishvalir haldi sig á veturna. Þegar hafi tveimur merkjum verið komið fyrir á baki hrefna úr minnsta hrefnuveiðibátnum, Nirði. "Við erum í samstarfi við danska vísindamenn sem hanna merkin. Þeim er skotið með loftbyssu í bakið á dýrunum. Merkin eru með krókum sem festast í spikinu á þeim og síðan ná þau, ef vel gengur, sambandi við gervihnetti," segir Gísli. Gísli segir merkin enn á þróunarstigi: "Menn hafa í áratugi reynt að finna hinu réttu lausn fyrir hvalina. Bæði þola merkin illa hnjask og því erfitt að skjóta þeim svona. Þetta er mun erfiðara en með dýr eins og ísbirni sem hægt er að svæfa og koma merkinu haganlega fyrir. Hvalina getum við ekki fangað og haldið. Þeir eru auk þess í kafi yfir 95 prósent tímans."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×