Innlent

Barði mann með bjórkönnu

Fólskuleg líkamsárás á gest í veitingahúsi í Keflavík í nótt var nánast samkvæmt uppskrift úr vinsælli hasarmynd, sem sýnd var hérlendis í bíóum fyrir nokkrum árum. Atburðarrásin í nótt var sú að maður á fertugsaldri meiddist alvarlega í andliti og missti að minnsta kosti tvo lítra af blóði, þegar maður á þrítugsaldri réðst á hann og sló hann í andlitið með bjórkönnu, sem brotnaði með þessum afleiðingum. Maðurinn hlaut fimm skurði og þykir mildi að bæði augun skyldu hafa sloppið ósködduð. Hann var þegar fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem blæðingin var stöðvuð, og þaðan á Slysadeild Borgarspítalans þar sem gert var frekar að sárunum. Sauma þurfti 40 spor til að loka skurðunum. Árásarmaðurinn, sem áður hefur komsist í kast við lögin, var handtekinn og bíður yfirherslu í dag, en fórnarlambið var útskrifað af Slysadeild undir morgun. Tildrög málsins verða rannsökuð nánar í dag. Að sögn lögregluvarðstjóra í Keflavík var þarna nánast endurtekin sena úr kvikmyndinni Train Spotting, sem var vinsæl hér, einkum meðal ungmenna. Varðstjórinn sagðist vita um nokkur dæmi um samskonar árásir hér á landi, eftir að myndin var sýnd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×