Innlent

Viðgerðum í Selárdal lokið

Viðgerðum á húsi og listaverkum Samúels Jónssonar í Selárdal er nú lokið en verkin hafa legið undir skemmdum um áratugaskeið. Mörg þúsund manns leggja leið sína í Selárdal í Arnarfirði á ári hverju, þrátt fyrir að dalurinn sé afskekktur, til að skoða verk listamannsins með barnshjartað. Á föstudag var haldin uppskeruhátíð að viðstöddu fjölmenni til að fagna endurreisn listaverkanna en reiknað er með að verkinu ljúki á næsta ári. Verk Samúels hafa drabbast niður allt frá árinu 1969 þegar hann lést en sveitungi hans, Ólafur Gíslason í Neðri bæ, hefur þó reynt að fremsta megni að forða þeim frá eyðileggingu, að mestu fyrir eigin reikning. En það var Ólafur Hannibalsson, sem einnig á rætur að rekja í Selárdal, sem hóf baráttu fyrir endurreisn verkanna og fékk til þess stuðning landbúnaðarráðuneytisins en bær Samúels Brautarholt stendur á ríkisjörð. Auk þess sem listaverkin fengu andlitslyftingu var sett þak, nýir gluggar, gólf og hurðir á listasafnið sem Samúel byggði á sínum tíma yfir verk sín. Kirkjuturn kirkjunnar sem Samúel reisti yfir altaristöflu sem hann gerði var endurnýjaður og byggt nýtt loft í kirkjuna. Íbúðarhúsið sem er að falli komið þarfnast þó enn viðgerða en ákvörðun um það liggur ekki fyrir. Ólafur Hannibalsson segir þetta sýna hvað sköpunargáfan er rík og hvað hún geti gert ef maður trúir á þá hluti sem maður gerir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×