Innlent

Íbúalýðræði á Netinu

MYND/Vísir
Íbúar Garðabæjar geta brátt fengið sérhannaða heimasíðu bæjarfélagsins sniðna algerlega að þeirra þörfum og áhuga. Þar geta þeir meðal annars fylgst með skuldastöðu sinni og skólasókn barna sinna. Bæjarstjórinn segir tilganginn vera að stuðla að virkara íbúalýðræði í sveitarfélaginu.  Í haust fá allir íbúar Garðabæjar 18 ára og eldri aðgangsorð að vefsvæði sem er sérsniðið að þeirra þörfum. Í gegnum heimasíðu Garðabæjar geta þeir þá farið inn á vefsvæði sem nefnist „Minn Garðabær“ sem sérsniðið er að þörfum hvers og eins. Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að líkja megi vefsvæðinu við vefsvæði bankanna þar sem annars vegar eru almennar upplýsingar, öllum opnar, en með aðgangsorði komist fólk inn á sitt eigið heimasvæði, sem er öðrum lokað. Og möguleikar vefsvæðisins eru margir. Þar geta bæjarbúar séð hvernig mál þeirra standa, hvaða embættismenn eða nefndir eru að vinna í þeim, hægt er að nálgast upplýsingar sem snúa að áhugamálum eða hverfi viðkomandi og fólki gefst kostur á að taka þátt í hinum ýmsu umræðuvefjum. Síðast en ekki síst verður mjög virkt samráð við bæjarbúa á vefsvæðinu um þau mál sem eru í gangi að sögn Ásdísar Höllu sem vonast eftir samstarfi við ríkið á þessum vettvangi þegar fram líða stundir. Hún segir jafnframt að samstarf hafi verið haft við Persónuvernd svo allt væri tryggt í þeim efnum.  Stefnt er að því að vefsvæðið verði tekið í notkun í október.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×