Innlent

Hönnunargalla um að kenna

Hönnuðir viðbyggingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri kannast ekki við þann hönnunargalla á byggingunni sem nefndur er í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðandi segir það hins vegar engan misskilning að hönnunargalli hafi verið ein af ástæðum þess að viðbyggingin stóð ónotuð í áratug. Ástæður þess að viðbyggingin við Fjórðungssjúkrahúsið hefur að mestu staðið ónotuð í hartnær áratug eru, að mati Ríkisendurskoðunar, annars vegar fjárskortur og hins vegar hönnunargalli. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði forstjóri Fjórðungssjúkrahússins að ljóst væri að rými vegna rúma hefði verið vanreiknað. Í símaviðtali við fréttastofu sagði Garðar Halldórsson, fyrrverandi húsameistari ríkisins sem hafði umsjón með hönnun byggingarinnar, að gagnrýni Ríkisendurskoðunar væri hreinn misskilningur en vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið. Undir þetta tekur Birgir Breiðdal arkitekt sem teiknaði álmuna og segir hann gagnrýni Ríkisendurskoðunar vera rógburð. Hann segir að haft hafi verið fullt samráð við bæði heilbrigðisráðuneytið og forsvarsmenn spítalans á öllum stigum málsins og því sé gagnrýnin furðuleg í meira lagi. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi segir hins vegar að gagnrýnin sem fram komi í skýrslunni eigi algerlega við rök að styðjast og ljóst sé að hönnunargallinn spili sína rullu í því að byggingin stóð ónotuð svo lengi sem raun ber vitni. Endanlega sé ábyrgðin þó heilbrigðisyfirvalda þar sem allt bendi til þess að farið hafi verið af stað með byggingu sem, þegar til kastanna kom, var svo ekki þörf fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×