Innlent

Kostnaðarlækkun um 1,3 milljarða

Kostnaður vegna sérfræðilækna myndi lækka um 1,3 milljarða króna að mati Ríkisendurskoðunar, ef Reykvíkingar notuðu þjónustuna í svipuðum mæli og Akureyringar. Formaður Læknafélagsins segir þeirri spurningu þó ósvarað hvort munurinn sé til góðs eða ills; heilbrigðisþjónusta snúist um fleira en peninga. Á Akureyri er almenn heilbrigðisþjónusta í meginatriðum í höndum sjúkrahúss og heilsugæslu. Í Reykjavík þar sem fyrirkomulagið er með öðrum hætti gegna sjálfstætt starfandi sérfræðingar stóru hlutverki. Þar leitar hver íbúi að jafnaði um fjórum sinnum oftar til sjálfstætt starfandi sérfræðinga en íbúar Akureyrar gera að meðaltali. Ef Reykvíkingar leituðu í sama mæli til sérfræðinga og Akureyringar yrði kostnaður við sérfræðiþjónustu fjögur hundruð milljónir en ekki 1,7 milljarðar líkt og nú. Þetta kemur fram í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á rekstri og starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að yfirvöld sjúkrahússins á Akureyri hafi lagt áherslu á gott samstarf við lækna og treyst áhrif þeirra á starfsemi sjúkrahússins, öfugt við það sem sé raunin á Landspítalnum. Hann bendir á að sérfræðilæknar fyrir norðan vinni enn ferliverk inni á sjúkrahúsunum sem læknum á Landspítalanum hafi verið meinað að gera. Það voru mistök að sögn Sigurbjörns. Sigurbjörn segir að það sé þó ekki nóg að skoða fjárhagslegar forsendur í þessu dæmi. Þetta sé einungis vísbending um að það þurfi að skoða málið. Þeirri spurningu sé enn ósvarað hvort það sé til góðs eða ills hvort fólk noti sérfræðiþjónustu í sama mæli og Reykvíkingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×