Innlent

Sýknaður af manndrápsákæru

Hálffimmtugur Þjóðverji hefur verið sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi í Héraðsdómi Reykjaness. Maðurinn ók bifreið sem valt út af veginum á leiðinni frá Kleifarvatni í átt að Hafnarfirði þann 24. júlí síðastliðinn með þeim afleiðingum að félagi hans sem sat í aftursæti bifreiðarinnar kastaðist út, hafnaði undir bifreiðinni og lést af áverkunum fimm dögum síðar. Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið ölvaður undir stýri en ekki að hafa framið manndráp af gáleysi. Fimm Þjóðverjar voru í bílnum þegar slysið varð. Þeir voru allir ölvaðir og reyndist áfengismagn í blóði ákærða vera 0,89 prómill. Mennirnir báru upphaflega að hinn látni hefði ekið bifreiðinni en drógu þann framburð síðar tilbaka. Ákærði segist hafa ekið á um 40 kílómetra hraða frá Kleifarvatni. Skyndilega hefði bíllinn byrjað að renna til vinstri og hann smám saman misst stjórn á honum og hann oltið út af veginum. Töldu hann og einn félaga hans að vinstra framhjól bílsins hafi verið loftlaust eða loftlítið og að slysið mætti rekja til þess. Ennfremur hefði verið lausamöl á veginum. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að líkur séu á að áfengisáhrif ákærða hafi skert ökuhæfni hans leiki vafi á að hann hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við akstur að það nægi til sakfellingar. Hann er því sýknaður af þeirri ákæru en sakfelldur fyrir ölvun við akstur og dæmdur til greiðslu 60 þúsund króna sektar í ríkissjóð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×