Innlent

Umsóknarfrestur útrunninn

Frestur til að sækja um stöðu hæstaréttardómara í stað Péturs Kr. Hafstein, sem senn lætur af embætti, rann út í gær. Fréttastofu er kunnugt um fjóra umsækjendur: Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann, Eirík Tómasson lagaprófessor, Hjördísi Hákonardóttur dómstjóra og Allan Vagn Magnússon héraðsdómara. Fleiri umsóknir kunna að vera á leiðinni í pósti og verður ekki að fullu ljóst fyrr en á mánudag hvort svo sé. Hæstaréttardómari var síðast skipaður í embætti í fyrra en þá skipaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Ólaf Börk Þorvaldsson, og olli sú stöðuveiting miklu fjaðrafoki. Í kjölfarið mæltist umboðsmaður Alþingis til þess að ráðherra betrumbætti vinnubrögð sín við skipan dómara. Nú mun reyna á hvort ráðherra bregst við þeim tilmælum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×