Innlent

Lífeyrissjóðirnir fylgja bönkunum

Lífeyrissjóðirnir munu fylgja í kjölfar Íbúðalánasjóðs og viðskiptabankanna og lækka vexti á lánum til sjóðsfélaga. Lækkunin tekur einnig til þeirra sem þegar greiða af lánum til sjóðanna.  Vaxtalækkanir hjá lífeyrissjóðunum haldast í hendur við breytingarnar á íbúðalánakerfinu af þeirri ástæðu að markaðsvextir húsbréfa í Kauphöllinni hafa verið það viðmið sem sjóðirnir nota við að ákveða vaxtaprósentu af sínum lánum. Íbúðalán hafa tekið við af húsbréfunum og vextirnir lækkað og í leiðinni viðmið margra lífeyrissjóða. Algengt er að lífeyrissjóðslán beri 5,2 til 5,4 prósenta vexti. Flestir lífeyrissjóðir landsins íhuga nú vaxtalækkun og hafa sumir þeirra þegar ákveðið að lækka þá allt niður í 4,3 prósent eins og Lífeyrissjóður sjómanna. Enn er á huldu hvað stærstu lífeyrissjóðirnir muni bjóða sínum sjóðsfélögum, eins sem Lífreyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður Verslunarmanna, þar sem félagar skipta þúsundum. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins segir að ákvörðun um það hversu mikið vextirnir lækka verði tekin um mánaðarmót, en hjá Lífeyrissjóði Verslunarmanna ætti það að koma í ljós eftir helgi. Ólíkt því sem tíðkast hjá Íbúðalánasjóði mun vaxtalækkun langflestra lífeyrissjóða ekki einungis gagnast nýjum lánþegum heldur munu þeir sem nú þegar greiða af lífeyrissjóðslánum einnig njóta góðs af, enda eru vextir lífeyrissjóðslána breytilegir. Á næstu mánuðum ættu þeir því að sjá lægri vaxtaprósentu og þá lægri greiðsluupphæð á greiðsluseðlum sem berast inn um lúguna frá lífeyrissjóðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×