Innlent

Ógni ekki öryggi starfsmanna

Talsmaður Impregilo segir að hvorki ástand sjúkrabíla, né deilur við sjúkraflutningamenn, ógni öryggi starfsmanna við Kárahnjúka. Fjórir sjúkraflutningamenn hafa sagt upp störfum. Ástand sjúkrabíla og deilur við þá sem þeim aka við Kárahnjúka, hefur verið gagnrýnd, og sögð í ekki nógu góðu lagi. Ómar R. Valdimarsson, upplýsingafulltrúi, vísar þessu algerlega á bug. Hann segir þetta ómaklega gagnrýni þar sem meiri þjónusta sé á heilbrgiðissviði á Kárahnjúkum en í mörgum póstnúmerum innan Reykjavíkur. Ómar segir fimm sjúkraflutningabíla vera á svæðinu, þar af einn fjallabíl sem hefur verið útbúinn eins og sjúkrabíll, og notast í neyðartilvikum.Einn bíllinn hafi verið bilaður vegna þess að breytingar sem gerðar hafi verið á honum hafi ekki virkað eins vel og til var ætlast. Hann segir einn sjúkrabíl vera í hverjum aðalgöngunum og við aðalvinnubúðirnar. Þá séu þar einnig þyrlupallar. Síðan segir Ómar að Landsvirkjun hafi verið að kanna möguleika á því að byggja flugbraut við aðalvinnubúðirnar. Deilur hafa verið við sjúkraflutningamenn um kaup og kjör en Ómar segist fullviss um að hægt verði að ráða fram úr því. Fjórir sjúkraflutningamenn hafa sagt upp störfum hjá Impregilo. Einn þeirra er þegar hættur, en hinir hætta þegar uppsagnarfrestur þeirra rennur út. Ómar segir að nýir menn verði ráðnir í þeirra stað, eftir því sem tilefni gefist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×