Innlent

Tíu ára afmæli Reykjanesbæjar

"Besta afmælisgjöfin er líklega mjög góð niðurstaða í svokölluðu Bertelsmannsprófi sem er alþjóðlegur mælikvarði á gæði í stjórnsýslu," sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, á tíu ára afmæli bæjarins í gær. Árni segir Bertelsmannsprófið sýna að sveitarfélagið standi sig mjög vel í stjórnsýslu og þakkar hann það sameiningu sveitarfélaganna þriggja fyrir tíu árum síðan. Hann segir alveg ljóst að niðurstaðan úr prófinu hefði ekki verið svona góð ef sveitarfélagið væri minna, en um ellefu þúsund manns búa í sveitarfélaginu. Margt komi til og þá helst kostnaður tengdur þjónustu. Árni sagði góða stemningu vera í bænum enda alltaf gaman í tíu ára afmælum. "Við vildum hafa afmælið alþýðlegt og fá okkur kaffitár með bæjarbúum og landsmönnum. Hér hefur veðrið líka verið mjög fallegt," sagði Árni. Fyrir krakkana var settur upp hoppukastali og þrautabraut í skrúðgarðinum auk annarra uppákoma. Þá var opnuð sýning á byggðasafninu. Á sýningunni eru bornir saman gamlir og nýir tímar og stendur hún yfir í eitt ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×