Innlent

Barnshafandi með þúsundir e-taflna

Barnshafandi kona sem reyndi að smygla hingað til lands 5.005 e-töflum var úrskurðuð í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Töflurnar fundust við venjubundið eftirlit Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli í bakpoka konunnar þegar hún kom hingað til lands frá París á fimmtudaginn. Þetta er mesta magn af e-töflum sem reynt hefur verið að smygla inn í landið en svipað magn var gert upptækt á Keflavíkurflugvelli árið 2001. Konan, sem er 26 ára gömul, er komin fimm mánuði á leið og á fyrir fjögurra ára gamla dóttur. Hún er frá Sierra Leone í Afríku en er með hollenskt vegabréf. "Þetta er eitt skýrasta dæmið um að menn svífast einskis við að koma þessu eitri til landsins. Það virðist við fyrstu sýn sem menn séu að notfæra sér neyð og bágindi annarra," sagði Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Rannsókn málsins, sem er í höndum lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli, er á frumstigi. Áætlað götuverð efnanna er um 10 milljónir króna. Hámarksrefsing við meintum brotum konunnar er tólf ára fangelsi en miðað við dómaframkvæmd má konan búast við 4-6 ára fangelsi verði hún fundin sek.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×