Innlent

Háhýsabyggð á Seltjarnarnesi

Hópur bæjarbúa á Seltjarnarnesi óttast að skipulagsslys sé í uppsiglingu vegna háreistrar íbúðabyggðar sem hugmyndir eru um að rísi þar sem nú er fyrir knattspyrnuvöllur fyrir neðan Valhúsaskóla. Eftir kynningarfund um deiliskipulagið sendi áhugahópur um betri byggð á Seltjarnarnesi bæjarstjóra bréf þar sem varað er við hugmyndum um að "byggja 180 nýjar íbúðir í allt að 6 hæða blokkum, auk gervigrasvallar." Undir bréfið rita rúmlega 200 manns. Jónmundur Guðmarssonar, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir málið á nokkrum misskilningi byggt. "Tillaga bæjarstjórnar sem samþykkt var samhljóða fyrir ári síðan kvað á um allt að 180 íbúðum. Svo er bara verið að vinna í málinu og það ekki komið á það stig að það sé klárað, þannig að fólk er kannski að gefa sér fullmikið um hlutina," sagði hann og bætti við að einungis hafi verið kynntar grunnhugmyndir á kynningarfundinum sem fram fór fyrir rúmum mánuði. "Á vegum skipulagsnefndarinnar er svo í rólegheitum verið að fara yfir athugasemdir sem borist hafa. Síðar verður svo á einhverju stigi lagt fram eiginlegt deiliskipulag, en það er ekki einu sinni komið að því," sagði Jónmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×