Innlent

Ástþór kærir

Ástþór Magnússon krefst þess að forsetakosningunum verði frestað, þar sem frambjóðendum sé mismunað í fjölmiðlum. Hann hefur einnig kært Ríkisútvarpið fyrir ritskoðun. Ástþór telur gróflega á sér brotið í konsingabaráttunni. Í tilkynningu frá Friði 2000, sem er undirrituð af Ástþóri, segir að sendar hafi verið kærur til Hæstaréttar, Yfirkjörstjórnar og Umboðsmanns Alþingis, auk þess sem Ríkisútvarpinu verði stefnt fyrir Héraðsdóm síðar í dag. Þá telur Ástþór að Ríkisútvarpið hafi ritskoðað gróflega viðtal við Dr. Dietrich Fischer, sem sent var út í Kastljósinu í gærkvöld. Vitnað er til bréfs Fischers, sem segir að tekið hafi verið upp 45 mínútna langt viðtal, sem síðan hafi verið stytt í 10 mínútur, og öllu sem mestu máli hafa skipt, verið sleppt. Fischer líkir þessu við kosningabaráttu í Júgóslavíu árið 1992, þegar Milosevitch stýrði allri umræðu í fjölmiðlum. Af þeim sökum hefur verið send athugasemd til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og þess farið á leit að stofnunin hafi eftirlit með forsetakosningunum, líkt og hún geri í ýmsum Austur-Evrópuríkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×