Innlent

Rjúpnastofninn í uppsveiflu

Rjúpnastofninn er í mikilli uppsveiflu en þrátt fyrir það telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki ástæðu til að falla frá ákvörðun um þriggja ára veiðibann. Ástæðan er sú að þrátt fyrir uppsveifluna er tiltölulega lítið af rjúpu í landinu þar sem stofninn var orðinn mjög lítill áður en hann fór að rétta úr kútnum. Í frétt frá stofnuninni segir að uppsveiflu, sem hafin var á friðaðaða svæðinu suðvestanlands vorið 2003, gæti nú jafnframt í nær öllum öðrum landshlutum. Miðað við fyrri reynslu megi búast við að stofninn vaxi næstu þrjú til fjögur árin. Vöxtur stofnsins nú, sé í samræmi við þær væntingar, sem gerðar voru til friðunaraðgerðanna fyrir einu ári. Rjúpur voru taldar á fjörutíu svæðum í öllum landshlutum í vor og var veruleg fjölgun mæld á 35 svæðum. Meðal aukning frá í fyrra var liðlega hundrað prósent og fór hæst í 400 prósent á tilteknum svæðum á Suðvesturlandi. Að mati Náttúrufræðistofnunar verður því langtímatakmarki, að veiðarnar verði sjálfbærar, ekki náð nema með markvissu veiðistjórnunarkerfi þar sem meðal annars verði hægt að grípa til sölubanns og svæðafriðunar, gerist þess þörf. Nefnd á vegum umhverfisráðherra vinnur nú að tillögum um stjórnunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×