Innlent

Frumvarpinu breytt

Allsherjarnefnd hefur gert breytingar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem miðað er að því að stöðva verkfall grunnskólakennara og setja kjör þeirra í gerðardóm. Þær gera ráð fyrir að gerðardómur verði skipaður þegar í næstu viku og að úrskurður dómsins verði afturvirkur til þess tíma þegar kennarar koma aftur til vinnu. Hundruð kennara mættu fyrir utan Alþingi í morgun þar sem umræður um frumvarpið fara fram. Kennarar mættu fyrstir til leiks á Alþingi í morgun, og voru þeir fyrstu komnir fyrir klukkan 10. Þegar mest lét voru þar nokkur hundruð kennarar, mun fleiri en í gær. Þeir flautuðu og púuðu þegar stjórnarliðar mættu til vinnu en fögnuðu stjórnarandstæðingum ákaft. Þá liggur uppskera heillar bananaplantekru á tröppum Alþingis, með vísan til bananalýðvelda sem virða leikreglur lýðræðis að vettugi, ásamt skilti sem á stendur "þjóðarskömm". Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands segir kennara í sjálfu sér ekki vera á móti lögum að þeir séu heldur ekki mótfallnir því að gerðardómur úrskurði um laun þeirar. Hins vegar sé ótækt að gerðardómur taki ekki til starfa fyrr en eftir mánuð og sé ekki ætlað að komast að niðurstöðu fyrr en í lok mars á næsta ári, með afturvirkum breytingum sem ná ekki lengra aftur en til 15. desember. Þetta gerði það að verkum að háværar raddir voru á meðal kennara um að mæta ekki til vinnu á mánudag, eins og þeim er gert að gera samkvæmt frumvarpinu. Svona hljómaði frumvarpið í gær, en það hefur nú breyst í meðförum allsherjarnefndar. Þingfundur átti upphaflega að hefjast klukkan hálfellefu en honum var frestað í þrígang vegna tæknilegra atriða eins og það heitir. Fundur hófst svo þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í tólf. Fyrstur steig í pontu Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar. Hann boðaði þær breytingar á frumvarpinu að gerðardómur verður skipaður þegar þann 20. nóvember eða eftir slétta viku, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Gerðardómi er ætlað að komast að niðurstöðu fyrir 28. febrúar næstkomandi og skal úrskurður hans vera afturvirkur til þess tíma sem lögin taka gildi, eða með öðrum orðum, kennarar verða þegar á mánudag á þeim launum sem gerðardómur mun úthluta þeim. Þetta segir Bjarni Benediktsson að sé gert í ljósi viðtala við deilendur í gærkvöld þar sem það kom skýrt fram að viðræðurnar væru í algeru strandi og ekkert sem bendir til að þeir geti komist að samkomulagi. Í ljósi þessara breytinga er ekki fjarlægt að draga þá ályktun að forysta Kennarasambandsins sé sáttari við frumvarpið nú en í gær, en reikna má með að umræður um frumvarpið dragist fram eftir degi. Bjarni Benediktsson var að ljúka máli sínu og nú stendur Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í ræðustól og mælir fyrir minnihlutaáliti allsherjarnefndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×