Innlent

Alnæmisfaraldur herjar á ketti

Banvænn alnæmisfaraldur herjar á ketti í Vestur-Noregi. Dýraeftirlitið í Bergen krefst þess að allir kattaeigendur geldi dýrin áður en þau verða kynþroska. Sama veira hefur fundist í köttum hér á landi. Alnæmisveiran fannst fyrst í köttum hér á landi fyrir þremur árum þegar nemendur í dýralækningum tóku sýni úr hundrað og fimmtán köttum, aðallega villi- eða útigangsköttum. Þrír þeirra reyndust vera með alnæmi. Dýralæknirinn Hrund Hólm, ein þeirra sem vann að rannsókninni, segir enga leið að segja til um hversu mörg dýr eru sýkt um þessar mundir. Danska dagblaðið Jyllandsposten greinir frá því að fimmti hver villiköttur á Fjóni sé smitaður og smiti heimilisketti þegar þeir spóki sig úti við. Þá greinir norska Aftonbladet frá því í dag að, að minnsta kosti 200 kettir hafi látist vegna veirunnar. Talað um faraldur í Vestur-Noregi. Alnæmisveira kattanna brýtur niður ónæmiskerfi þeirra, líkt og veiran sem mannfólkið veikist af. Hrund segir að eftir að þeir smitist verður vart vægra einkenna eins og niðurgangs en svo geti kettrirnir verið einkennalausir í allt að fimm ár. Á síðasta stiginu er ónæmiskerfið orðið mjög lélegt og þá koma upp þrálátar sýkingar sem erfitt er að eiga við. Rétt er að taka fram að alnæmisveiran smitast ekki milli dýrategunda og því er engin hætta þessu samfara fyrir fólk. Hún smitast milli katta við bit en ekki þegar dýrin eðla sig. Því eru það helst fresskettir sem verða fyrir barðinu á henni, þegar þeir kljást um læður. Kattaalnæmi er enn sem komið er ekki faraldur hér á landi, en þó þurfa eigendur katta sem fluttir eru hingað til lands að framvísa vottorði um að þeir séu ósýktir af veirunni. Nú liggja einnig fyrir drög að reglugerð um að gelda skuli alla fressketti, sex mánaða og eldri, sem ganga lausir í Reykjavík. Hugsunin á bak við það er aðallega að sporna við fjölgun katta að sögn Hrundar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×